mánudagur, apríl 30

Og svo komu önnur ár

Að ætla að byrja aftur að skrifa í fyrstupersónu eftir árin þrjú í akademíunni er næstum óhugsandi. Hvers konar skref yrði það svo sem? Til baka í nostalgískum aftur-til-fortíðar þykjustuleik; að reyna að sjá heiminn aftur með augum rómantískrar hugóraveru og ídealista? Að þykjast fljóta enn á ný um á fjólubláu skýi vona og narsissískra væntinga? Að spegla mig í sjálfri mér enn og aftur, meira og meira, að fá aldrei nóg.

Hér kemur hún aftur: fyrstapersónan. Þegar ég kem of nærri mér er erfitt að beina augunum annað.

Til hvers? Fyrir hvern?

Ég kem ekki upp einu orði lengur nema ég trúi því, að það breyti kannski einhverju eða einhverjum. Tilviljunarkenndar alhæfingar um ekkert eru liðin tíð. Orðið alhæfing er orðið svartlitað í mínum huga, eða kannski grátt: litur óvitneskjunnar, barnslegs tauts, þruglsins.

Ég hef heyrt nóg af tauti. Nú þrífst ég á öðru.
Og bráðum er ég búin með eina háskólagráðu og held svo áfram á annarri.

Til hvers? Fyrir hvern?
Fyrir framtíðina. Fyrir birtuna. Fyrir vonina.
Rómantíkusinn fer aldrei langt.

sunnudagur, júlí 25

Upphaf og endir

Lífið er skrítið. Þetta sumar er orðið að einu besta sumri lífs míns.
Knúið af tilfinningarússíbana og upplifunum. Kannski bara af því að mér finnst ég vera svo lifandi. Ég hef aldrei verið jafn lifandi. Ég er farin að skilja aðeins betur. Heildarmyndin birtist annað slagið. Allt er í mínum höndum. Okkar vald á lífinu eru ákvarðanir okkar.
Ég er komin á núllpunkt. Upphaf og endir. Ég er allt og ekkert. Hef alla möguleika, get gert hvað sem er.

Á sama tíma full af jafnvægi og ójafnvægi, til skiptis, óblönduðu. Svona eins og fita og vatn. Ómöguleg blanda en samt svo spennandi. Ég þarf að finna sápuna, tenginguna.
Ég berst við að jarðtengja mig. Dreg andann reglulega. Inn um nefið og út um munninn. Þannig slaka ég á. Og svo prjóna ég.
Ég er farin að meta Ísland á ný. Krafturinn í náttúrunni. Orkan. Ég fæ ekki nóg. Ég hef eytt nokkrum helgum utan borgarmarka. Farið í fjallgöngu. Svo gott. Svo mikilvægt.
Og svo hleyp ég í Elliðaárdalnum.

Tónlist er líka farin að skipta máli, aftur. Hún er orðin nauðsyn, aftur. Þess nýt ég.
Mér líður vel og hræðilega. Ég er lifandi. Ég finn jörðina snúast. Ég finn púls heimsins.
Ég hlusta á sál heimsins.

föstudagur, maí 7

Sumar

Sjónan er víð, varirnar votar. Kjálkinn er stífur, brosið er breitt.
Ég er svo spennt. Ég hlakka svo til.
Íslenskt sumar! Bjartar nætur, lopapeysur, vinastundir, útilegur!

Tryllingsleg augnablik í miðborginni þegar allir hafa fengið sér einu tári of mikið og tjá vinum og kunningjum ást sína og framtíðarplön.
"Þú ert brra... ynnnndisleg!"

Ætli minn rómur muni ekki óma hvað mest á þennan hátt enda hef ég margra að sakna héðan frá útlandinu. Hjartað mitt þráir og dáir og elskar. Elskar!
Vinir hafa aldrei haft jafn mikla þýðingu fyrir mig sem nú.
Og það er gott.
Loksins, loksins, loksins er ég manneskja með tilfinningar og blæðandi sár.
Loksins mun ég kunna að meta þessi tryllingslegu augnablik frekar en að halda mig frá þeim í öryggi.

Fjölskyldan hefur alltaf haft svona mikla þýðingu.
Hún hefur alltaf verið númer eitt.
Alltaf. Og því fagna ég.
Ég hef alltaf kunnað að meta alla þessa ást sem ég fæ.
Alla ástina sem ég sendi og reyni að senda og finnst ég aldrei senda nóg af.

Og það er gott!


Sjáumst í sumar yndisvinir og kunningjar og fjölskylda. Ég vil fagna ykkur öllum, okkur öllum, og faðma!

Sjáumst í sumar.